Ísland í dag

18. nóvember 2008

Sætust

12. nóvember 2008

Ljós í rökkrinu

11. nóvember 2008

Rökkrið er farið að umfaðma okkur.  Mér þykir alltaf vænt um þennan árstíma.  Það er eins og myrkrið þjappi okkur saman.  Færir okkur nær hvort öðru.  Það hægist á öllu og kemur einhver þægileg værð yfir allt sem mér líkar.  Það er notalegt að sitja við kertaljós og spjalla saman eða spila.  Já eða bara vera saman þó hver sé að gera sitt.  Það er oft þægileg þögn í myrkrinu sem við gleymum að njóta.  Myrkrið er líka fullt af tækifærum.  Það er jú okkar val hvernig við kjósum að lýsa það upp.  Mér finnst það góð tilfinning.

Fleygið mitt foruga

5. nóvember 2008

Er í öngum mínum yfir þessu bananalýðveldi sem við búum í.  Er sár, svekkt og foxill.  Siðblindan virðist vera bráðsmitandi.  Almennir mannasiðir á undanhaldi,  og sjálfsögð kurteisi algjörlega fyrir bí.  Nú er allt kapp lagt á að halda þessari skútu á floti.  Fyrirgefiði en ég fór aldrei eina einustu ferð með þessu ósómafleygi og það má sökkva fyrir mér.

Þegar fólk er tilbúið til að haga sér eins og menn, já þá skal ég róa eins og ég eigi lífið að leysa.  En ég neita að troða marvaða í þessum skít

Lalalalalalla

3. nóvember 2008

Já lífið heldur áfram.  Það er akkurat ekkert að frétta.  Ekki neitt.  Zero.  Zip.  Nada.

Sem er gott svona á þessum síðustu og verstu.  Er það ekki? 

Heppni?

31. október 2008

Undanfarið hefur borið á því að fólk hefur komið á tal við mig og tjáð mér hversu HEPPIN ég sé.  Heppin yfir að sitja ekki uppi með milljónakróna jeppa á lánum sem hækka og hækka, heppin að sitja ekki uppi með einbýlishús á lánum í erlendri mynt, heppin að hafa ekki slegið lán til að endurnýja innréttingar og innbú og heppin að hafa getað ferðast án þess að taka lán fyrir því.  

Mitt svar:  “Já ég er ótrúlega heppin.  Heppin að hafa vilja sem gerir mér kleift að taka sjálfstæðar ákvarðanir er varða mitt líf.  Heppin að gera mér grein fyrir því að heppni hefur ekkert með það að gera”.

Góða helgi

Heima er best

26. október 2008

Við skiluðum okkur heim fjölskyldan úr fannferginu fyrir norðan.  Æðislegt frí í skemmtilegu umhverfi og við ætlum svo að gera það að árelgum viðburði að heimsækja Norðurlandið.  Féllum alveg fyrir töfrum Akureyrar og gaman að ferðst loks aðeins um landið sitt.  Við fórum því miður ekki í Mývatnssveitina, að þessu sinni, en lofuðum okkur því að gera okkur ferð þangað er vora fer.  Enda Alma alveg búin að stimpla það inn hjá mér að það sé eitthvað sem ég bara verði að gera.

Nú tekur hversdagurinn við í allri sinni dýrð. 

Vetrarfrí

16. október 2008

Það er fimmtudagskvöld og ég er að undurbúa 5 daga sumarbústaðarferð fjölskyldunnar sem hefsjast skal á morgun.  Meðvituð um að ég er að skapa framtíðarminningar barna minna legg ég metnað minn í undirbúninginn.  Ég hef undirbúið nákvæman lista yfir það sem taka skal með.  Farið vandlega yfir allt það sem mögulega þarf til að skapa minningar sem fylgja manni alla ævi og vonandi verður hugsað til baka til oft á tíðum.   Ég hef farið í marga hringi.  Bætt á listann og tekið út nokkrum sinnum.  Á endanum lítur hann samt bara svona út. 

  • Sóley
  • Salka
  • Brynjar
  • Aldís

Lífið í lit

14. október 2008

Undanfarið hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að kenna sundleikfimi fyrir eldri borgara. 

Í gamalli innisundlaug, sem byggð var um miðja síðustu öld af hyggjuviti og myndugskap þeirrar kynslóðar, stend ég léttklædd á bakkanum, sökum hita, og leiði hópinn áfram í sundleikfimi.  Ástæðan er að sá sem kennir þeim, og ég er nú í forföllum fyrir, er að krúsa á mótórhjóli um Bandaríkin með eiginkonu sína aftan á.  Þarna stend ég frammi fyrir vel til höfðum konum með bróderaðar sundhettur, í vel sniðnum efnismiklum sundbolum sem faðma allar þeirra línur á réttum stöðum og þær brosa allar til mín vel varalitaðar og eitthvað svo óendanlega fallegar.  Karlarnir, sem eru í miklum minnihluta, halda sig aftast en brosa allir til mín líka.  Það er mikil gleði og grín í loftinu og ég smitast um leið.  Verð glettin og glöð þar sem ég stend á bakkanum og virði fyrir mér bróderaðar sundhettur í öllum regnbogans litum og hugsa til miðaldra manns, í leðurjakka með kögri, sem þeysir um þjóðvegg 66 á mótórhjóli með konuna sína aftan á.

Lífið er bara smart.

Time out

8. október 2008

Ég er með vaxtaverki í heilanum eftir að hafa reynt að meðtaka og skilja eitthvað í þeim hugtökum sem kollríða nú allri þjóðfélagsumræðu.  Þá eru það helst hinar stjarnfræðilegu upphæðir sem vefjast fyrir mér.  Þúsundir milljarða??? Hvað eru mörg núll í því? 

Annars ætla ég að skella mér í sund með fjölskylduna og svo er fyrirhuguð keppni í singstar þar sem sigurvegari verður krýndur eftir grjónagrautinn sem er í kvöldmat.  Svo tökum við mæðgurnar trúlega spilarimmu kvöldsins sem oftast er Uno.  Fyrir þau sem ekki þekkja til þá er þetta bara ósköp venjulegur miðvikudagur á Skólabrautinni og kemur kreppunni ekkert við.

Góðar stundir ;-)