Breytingar

16. apríl 2009

Í dag verður skrifað undir mikilvægt plagg.  Plagg sem mun flytja lífið af Skólabrautinni, yfir götuna og ca 150m til hægri.  Við erum sem sagt að fara að flytja, eftir mánuð, á Vesturgötu 65 (sem er hér ská á móti).  Síðast þegar við fluttum þá fluttum við líka yfir götuna af Vesturgötu 59.  Þetta er okkar torfa og markmiðið að fara sem styst frá Merkurtúninu.  Við höfum verið spurð að því hvað við ætlum að ná að flytja oft á sömu 5 fermetrunum.  Mér finnst þetta nú bara nokkuð gott enda vita flestir sem mig þekkja hversu íhaldsöm ég er. 

En nú getið þið bara dæmt sjálf.

 http://picasaweb.google.com/lh/photo/F7n2lCQrL2dmbcjtH6FxQA?authkey=Gv1sRgCKagjLLogdW1Xg&feat=directlink

Föstudagurinn langi

10. apríl 2009

Páskafríið heldur áfram á Skólabrautinni.  Stelpurnar eru úti að hjóla, línuskauta og leika sér allan liðlangan daginn meðan húsmóðirin sinnir gömlum syndum.  Lokaritgerð við LBHI á hug minn allan enda ekki seinna vænna svona korter í skil.  Annars er allt gott að frétta enda ekki annað hægt í blíðunni. 

Í dag er Föstudagurinn langi það er vel við hæfi að eyða honum í ritgerðarsmíðar.  Þó ég muni nú þá tíð þegar maður mátti hvorki æmta né skræmta á þessum degi.  Það var bannað að spila og maður átti að láta sér leiðast allan liðlangan daginn.  Enda voru þetta langir og leiðinlegir dagar í minningunni en páskadagur enn gleðilegri fyrir vikið. 

Það er orðið bjart á skerinu og gott að vakna á morgnana við sól og fuglasöng.  Það fyllir hjörtun birtu og yl og vekur hjá manni þrótt og þor.  Í brjóstinu vakanar þessi sér íslenski spenningur og óþreyja sem heltekur allt og alla á vordögum.  Það er trú mín að ekkert fái hina íslensku bjartsýni niður barið því með vorinu vaknar hún alltaf aftur.

Páskafrí

2. apríl 2009

Það er allt að gerast hjá okkur hér á Skólabrautinni.  Lífið hamast áfram og nú er komið páskafrí.  Bara einn stuttur föstudagur eftir og svo er öll fjölskyldan komin í frí fram til 14. apríl.  Að því tilefni ætlum við að bruna í sumarbústað annað kvöld og dvelja í nokkra daga í góðum félagsskap.  (Við systurnar með öll okkar viðhengi).  Planið er að borða góðan mat, spila, fara í göngutúra og lesa góða bók milli þess sem maður leggur sig og fer í heita pottinn. 

Sóley og Salka eru hinar hressustu.  Þær skottast hér um kátar og glaðar og eru bara montnar með lífið.  Enda ýmislegt til að vera montinn yfir þessa dagana og tilhlökkun í loftinu.

Mars í mótun

2. mars 2009

Febrúar kom og fór og verður í minnum hafður hér á Skólabrautinni fyrir þá svaðalegustu veikindatörn sem við höfum orðið fyrir.  Því tökum við fagnandi á móti mars-mánuði með von um blómlegri tíma.  Það er því skiljanlega ekkert af okkur að frétta.  Nema bara hvað lífið er farið að rúlla sinn vanagang aftur og mikið ósköp sem mér þykir það gott. 

Það setur nú svip á lífið hversu bjart er orðið frameftir og útiveran lenginst sífellt í annan endann sem léttir lundina og fyllir mann óþreyju eftir vorinu sem maður skynjar nú handan við hornið. 

Pestabæli

13. febrúar 2009

Héðan er ekkert að frétta.  Hef legið eins og skata með pest það sem af er vikunnar og nú er Sóley lögst líka. 

Góða helgi 

Gekk í fyrsta sinn á Esjuna í gær.  Upp að steini, sem er langleiðin upp að topp.  Hann var hinsvegar óárennilegur í harðfenninu og var ákveðið að bíða með þann áfanga til vors.  En það var ótrúlegt að vera í fjallgöngu í janúar, í 5 stiga hita, blanka logni og sól. 

Ég þarf varla að taka það fram að Akrafjallið var geðbilað að sjá!!

Stemning

21. janúar 2009

Eitthvað sem áður hljómaði svo glaðlega í eyrum

öskrar nú stjórnlaust í andlitið á mér.

Ég man daga þegar stemning var mér samheldni, gleði og glaumur.

Vissi ekki að hún gæti svo auðveldlega snúist í höndunum á manni.

Að hún væri stjórnlaust verkfæri sem nærðist á hugmyndum,

sama hversu vanhugsaðar þær væru.

Að hún lægi í vari, lymskulega og biði færis á að taka yfir.

Nærðist og stækkaði þangað til hún væri stærri en við sjálf.

Snéri sér þá við og biti okkur í kinnarnar,

glotti upp í opið geðið á okkur og flengdi úr okkur alla reisn.

Að hún murkaði lífið úr hugsjónum svo ekkert er eftir

nema óbragðið í munninum.

Sóley á Árbæjarsafni

17. janúar 2009

          Sóley Davíð og Freyja mótmæla

Janúar tekur á sig mynd

15. janúar 2009

Það líður á janúar og lífið á nýju ári að taka á sig mynd.  Það ríkir almenn sátt og gleði á Skólabrautinni.  Nú taka við fimleika-, sund og körfuboltaæfingar, tónlistarskóli og heimalærdómur sem er vel.  Daginn er farinn að lengja og smátt og smátt þokumst við í átt að vori.  En við erum staðráðin í að njóta lífisins jafnt í dag sem og þá.  Skorum á ykkur að gera það sama. 

Í Lyseberg

11. janúar 2009

Reynir, Maria, Salka og Sóley

        Reynir; Maria, Salka og Sóley