Nýtt líf

14. október 2009

Það hefur kviknað nýtt líf hér á Vestugötunni.  Enn ein prinsessan komin í heiminn, alveg jafn fullkomin og hinar.  Hún er draumur okkar allra og kemur hér inn með værð, hlýju og notalegheit.   Við höfum öll notið fyrstu viku hennar í lífinu í botn.  Henni virðist líka vistin hjá okkur vel því hún sefur út í eitt og það virkar róandi og sefandi á okkur hin.  Það er jú ekkert eins róandi og að hafa sofandi ungabarn í húsinu.  Stóru systurnar eru hugfangnar af henni en bera sig mannalega og eru furðu yfirvegaðar. 

Lífið er ljúft og við njótum þess.

 

Mitt fríða föruneyti

25. júlí 2009

Laugardagur til lukku

25. júlí 2009

Það er víst laugardagur í dag.  Þó svo allir mínir dagar séu laugardagar nú orðið.  Það er eitthvað hressandi við kuldann sem hefur gustað hér um undanfarna daga.  Hressandi að fá norðanáttina hérna beint af sjónum og í fangið.  Hressir mann við og vekur mann upp úr sólbaðsmókinu.  Nú þarf að fara að bretta upp ermar og fara að gera eitthvað.  Það situr allt á hakanum í sólartíð.  Enda forréttindi að geta sleikt sólina þegar hún kemur og látið allt annað sitja á hakanum.  Ég tala nú ekki um ef maður er með læknisvottorð upp á það í þokkabót.  En nú þegar gustar um þá vaknar maður aðeins til lífsins og fær löngun til að taka til hendinni. 

Annars verður eflaust nóg að gera.  Hér þarf að klára að koma sér fyrir og gera klárt fyrir veturinn.  Nú svo þarf að huga að komu nýja lífsins í fjölskyldunni.  Næstu dagar verða þó tileinkaðir mömmu, sem er að koma heim af sjúkrahúsi í dag eftir að hafa lent í slysi sem endaði með spengingu á þremur hryggjaliðum.  Já hestamennskan er ekkert grín.  Í þetta skiptið prjónaði yfir sig hestur með hana og lá afvelta ofan á henni á steyptu gólfi.  En það eru töggur í þeirri gömlu og hún slapp ótrúlega vel. 

Mér leiðist!  Þó svo ég trúi engan veginn á það.  Ég meina hvað eru leiðindi annað en sjálfsköpuð og sjálfsprottin.   Ég tek vanalega ekki þátt í svoleiðis.  En það er ekki laust við að hann læðist að mér leiðinn engu að síður.   Þrif, tiltekt og þvottur eru ekkert að gera fyrir mig lengur.  Mig vantar nýja spennu í lífið.  Kannski ég hjóli á bókasafnið taki mér góðar bækur, keyri út fyrir bæinn og tjaldi nýja tjaldinu mínu einhversstaðar í náttúrunni og liggji þar………?

Bara hugmynd!  Ég ætla að liggja hérna aðeins áfram og spá í þessu ;-)

Sumarið er tíminn….

8. júlí 2009

Það er ekki mikið að frétta af okkur.  Sumarið heldur áfram og við tröllum með.  Hér er allt í rólegheitunum nema hvað Brynjar hefur helgað sig barstörfum í bili, sem er náttúrulega sjokkerandi fyndið.  Maður sem hefur enga reynslu af barstörfum og ekki mikið komið á bar í seinni tíð, ja nema þá sundlaugabar, er sem sagt farinn að blanda fólki drykki um miðjar nætur.  Lífið er svo skemmtilega súrealískt stundum.  Bara spennandi hvert það tekur mann næst. 

Ég held hinsvegar áfram að taka því rólega í sumrinu.  Lífið er ekkert með mig í neinni rússíbanareið þessa dagana en ég hef það gott á lágstemmdum nótum.  Finnst samt svona eins og ég sé með lífið fast í “slow motion” meðan allir aðrir eru með það á allt annarri stillingu.  Eins og það gildi önnur lögmál í mínum heimi og þeirra.  Ég sit því við gluggann, með tebollan minn, og horfi á þau þeysa hjá.  Fæ mér sopa og velti fyrir mér hvort ég eigi að vera svolítið villt og setja í eina þvottavél……..eða tvær.

Ég á afmæli í dag

4. júlí 2009

Óska ykkur öllum innilega til hamingju með það

16. júní 2009

Lífið mallar áfram hér á Vesturgötunni.  Hér eru nú allir í sumarfríi og una sáttir við sitt.  Ég er farin að geta verið meira á ferðinni og það bjargar geðheilsunni.  Hjóluðum i sund í gær í góða veðrinu og mér fannst ég hafa himinn höndum tekið.  Það er gott að komast út og nú stefnir hugurinn út í mó og upp á fjöll. 

Á sunnudaginn tókum við rúnt til Reykjavíkur og spókuðum okkur í miðbænum.  Yndislegt að labba um og skoða mannlífið í góða veðrinu.  Enda hef ég ekki komið þangað í háa herrans tíð.  Hápunktur ferðarinnar var þó tvímælalaust skólatöskukaupin handa Sölku.  Hún ljómaði eins og sól í heiði þar sem hún bar nýju skólatöskuna á bakinu um borgina.  (Eða var það taskan sem bar hana, það er stundum ekki gott að sjá hjá þessum litlu stýrum).  Já lífið er að taka á sig nýja mynd.  Nú á ég ekkert barn í leikskóla á í bili.  Stelpurnar báðar komnar á skólaaldur.  Þær leika sér úti allan lið langan daginn og langt fram á kvöld svo ég verð klárlega að fara að finna mér eitthvað annað að gera í lífinu en hugsa um þær.  Nú Brynjar hefur líka öðlast nýtt líf eftir að hann eignaðist garð í órækt.  Hann sýslar hér úti í stígvélunum sínum allan liðlangan daginn.  Hvað hann er að gera er nú eitt og annað og stundum ekki gott að vita.  En ég verð að fara að finna mér eitthvað áhugamál það er alveg ljóst. 

Dettur ykkur eitthvað í hug?

Skólaslit

5. júní 2009

Það eru skólaslit í hjá Sóleyju í dag.  Skólinn búinn þetta árið.  Litla skottan mín búin með 2. bekk og skottast nú bara út í sumarið.  Salka og Binni eiga eina viku eftir svo eru þau komin í frí líka.  Sumarið er þá okkar.  Planið er ekkert.  Því eftir stíft skipulag vetrarins er notalegt að eiga allt sumarið skipulagslaust.  Ekki það við ætlum ekki að gera neitt, heldur ætlum við bara að gera það sem okkur sýnist hverju sinni.  En auðvitað fer megin þorri sumarsins bara í það að vera til og koma sér fyrir á nýjum stað.  Enda verið að öngla saman fyrir útborgunum í nýju höllinni og því verða ferðalög í lágmarki. 

En það má finna sér ýmislegt að sýsla.  Við Sóley erum til dæmis að þrífa rabbabara sem við ætlum að dunda okkur við að sulta í dag.  Síðan er planið að vera duglegur að baka hjónabandssælu og eiga með kaffinu.  Nú svo má alltaf dunda sér við að taka upp úr fleiri kössum.  Ótrúlegt hvað fylgir manni af drasli og það er svo freistandi að opna suma ekkert heldur bara henda öllu draslinu.  En………….besta að vinda sér í þetta.

Lífið færist um set

2. júní 2009

Lífið hefur tekið stórtækum breytingum hér hjá okkur því við erum flutt yfir götuna.  Ég sit því nú við gluggan og stari út á hafið og sé glitta í Snæfellsjökul við sjóndeildarhringinn.  Hér líður okkur öllum vel.  Nóg pláss fyrir alla og nægt andrýmið.  En það gekk nú ýmislegt á við tilfæringarnar á fjölskyldunni.  Eða svo er mér sagt því mér var aldeilis haldið fyrir utan allt húllum hæið þar sem ég var lögð inn á sjúkrahús í snarhasti.  Ég þurfti nú bara að liggja þar í nokkra daga en var svo lögð beint inn á Ásabrautina, til mömmu og pabba, þar sem mér var skipað að liggja fyrir meðan vinir og vandamenn pökkuðu búslóðinni minni, þrifu eftir mig skítinn og fluttu allt okkar hafurtask hingað yfir götuna.  Það var snögglega klippt á bensínleiðslurnar hjá mér og þegar magnleysið var orðið svo mikið að ég stóð ekki lengur undir mér var ég lögð inn.  Enda kom í ljós að ég var alltof blóðlítil og farið í að gefa mér járn í æð.  Fór í fimm gjafir alls og nú er ég öll að hressast.  Ég átti 3 vikur eftir í vinnu en var skikkuð í frí.  Svo nú er ég komin í frí fram að mánaðarmótum sept. okt. en þá ætla ég í fæðingarorlof.  Svo ég ætti að hafa tíma fyrir mig og mína og blogg þess á milli. 

Svo nú auglýsi ég eftir vinum og vandamönnum sem til eru að kíkja í kaffi og stytta mér stundir. 

Það er komið sumar….

24. apríl 2009

Það er ekkert sem ber íslenskri bjartsýni og báráttugleði betra vitni en sú þrákelkni okkar að halda sumardaginn fyrsta í lok apríl.  Mér líkar þessi lífssýn okkar.  Það er einhvernveginn þolanlegra að vera úti í 2° hita og norðanroki vitandi það að það sé sumar.  Það gerir lífið einhvern veginn bærilegra.  Enda er sumar bara hugarástand og ekkert annað. 

Hér fylgir sumrinu ávalt árleg afmælishrina með mikilli gleði og kátínu.  Sóley varð 8 ára síðasta vetrardag og hélt því upp á afmælið sitt á sumardaginn fyrsta.  14 stelpur dönsuðu hér um allt með Pál Óskar í botni, fóru í pokahlaup, reipitog og ratleik á Merkurtúninu og svo voru grillaðar pylsur í liðið.  Skemmtilegur og vel heppnaður dagur og heimasætan fór sátt í háttinn, uppgefin eftir daginn.  Litla skottan verður svo 6 ára 5. maí svo það er nóg að gera.  Við erum líka svo heppin að flestir okkar vinir, bæði stórir og smáir, eiga afmæli um þessar mundir.  Við virðumst laða að okkur hrúta og naut.  Enda yndislegt fólk allt saman. 

Nú svo er bara að fara að huga að flutningum.  Enda rétt mánuður í að labbað verður yfir götuna með allt hafurtaskið.  Þar mun byrja nýr kafli í lífinu.  Við höfum þá verið hér á Skólabrautinni í 5 ár nánast upp á dag.  Við munum svo rétt verða búin að koma okkur vel fyrir hinumegin þegar við ætlum að bjóða nýjan meðlim í fjölskyldun velkominn.  Það hefur nefninlega kviknað nýtt líf hjá okkur sem mun líta dagsins ljós í september. 

Gleðilegt sumar öllsömul