Það er spurningin.  Stóra spurningin á Vesturgötunni þessa dagana.  Yrsa greindist með mjólkurofnæmi svo ég, mjólkurbúið, þarf því að sneið hjá allri mjólk og mjólkurvörum.  Sem er svo sem ekkert mál en það gengur erfiðlega að finna súkkulaði sem innheldur hvorki mjólk né soya.  Soya fer nefninlega ekki vel í mína heldur.  Litla snúllan ætlar að taka lífið með áhlaupi.  Verst að geta ekki klínt þessum genagöllum á karlinn.  Verð víst bara að gangast við þessu sjálf enda komin úr myndarlegri exemfjölskyldu.  En það er í lagi honum verður gert að gangast við öllum skapgerðabrestunum enda ekki til neitt smyrsl við þeim. 

Annars er allt í sómanum.  Snjórinn kyrrsetur okkur Yrsu hér heima við en það má finna sér ýmislegt að dunda við.  Ekki laust við að inni- og einveran geri mann hálf undarlegan.  Þið takið tillit til þess þegar ég einn daginn hitti ykkur á förnum vegi.  Þangað til verð ég hér að dunda mér.

Sólríkt sekúndubrot

21. febrúar 2010

Það er kominn sólríkur sunnudagur.  Það gerist varla betra.  Allt eins og það á að vera.  Það segir sig sjálft sunnu-dagur skilurru!  Sólin flæðir inn um saltstorkna gluggana svo ljósið brotnar skemmtilega.  Tek á sekúndubroti ákvörðun um að finnast það fallegt.  Dáist að því um stund.  Magnað hvað hægt er að gera með hugarfarinu einu saman.  Á sekúndubroti skapaðist stund til að dáðst að kraftaverkum lífsins sem svo auðveldlega hefði getað drukknað í pirringi yfir drullugum rúðum.  Hugurinn er almáttugur á stundum sem þessum.  Í kjölfarið fyllist ég vissu um að þetta verði góður dagur.  Tek fagnandi á móti honum inn um saltstorknar gluggarúðurnar.   

Stúlkan sem starir á hafið

19. febrúar 2010

Það er enn og aftur kominn föstudagur.  Hvað varð um allar færslurnar þarna á milli.  Þær rötuðu ekki hér inn þrátt fyrir fögur fyrirheit.  En þannig er það bara stundum.  Allt gengur sinn vanagang hér á Vesturgötunni.  Sjórinn, djúpblár og hvítfrissandi mallar hér fyrir utan.  Lætur lítið yfir sér en þó með allt að því ógnandi tilburði á köflum.  Ég get setið hér langtímum og horft út í bláinn.  Ótrúleg lukka í lífinu að lenda hér við sjóinn.  Það er nefninlega þessi stutta stund sem ég hef áður en Yrsa vaknar og fólkið mitt kemur heim.  Þessi stund milli stríða sem ég kýs yfirleitt að eiga hér við eldhúsborðið þar sem ég get horft á hafið með kaffibollann minn.  Ég hunsa ryksuguna sem skáskýtur augunum til min og reynir með því að minna á sig með því að höfða til samvisku minnar.  En ég er samviskulaus þegar kemur að þessum stundum.  Ætla bara að sitja hér og stara á hafið, því næstu mínúturnar er þetta minn tími, mitt líf og mitt haf.  Næstu mínúturnar er ég stúlkan sem starir á hafið.

Svo tekur lífið aftur við í allri sinni dýrð.

Þorrablót

12. febrúar 2010

Það er kominn föstudagur, sem gerist svo sem alltaf reglulega, en það sem gerir þennan einstakan er að ég ætla á þorrablót.  Já það er þorrablót Brekkubæjaskóla, sem er einstaklega skemmtilegur viðburður sem vex einhvernveginn með manni.  Man þegar ég var að fara fyrst fyrir um 10 árum.  Það var sérstök upplifun sem ég var lengi vel ekkert viss um að ég vildi endurtaka.  Þarna voru allir gömlu kennararnir síðan ég var í skóla, bæði þessir skemmtilegu og svo líka hinir.  Mórallinn var sérkennilegur og húmorinn illskilinn.  Fyrstu árin lét maður sig hafa þetta, fór með bóndanum svona meira upp á punt en annað.  En hægt og hægt náði þetta sérkennilega samfélag að soga mig inn.  Húmorinn varð skiljanlegri og skiljanlegri.  Annálinn margrómaði  varð bara fyndnari og fyndnari með hverju árinu.  En svo loks þegar maður kynntist fólkinu þá var eins og eitthvað hefði afruglast og augu mín opnuðust.  Síðan hefur þorrablót í Brekkó verið aðal skemmtun ársins og mikið tilhlökkunarefni ár hvert.  Nú er svo komið að Brynjar kemst ekki, því hann er að fara að keppa.  Ég ætla samt sem +1 hjá öðrum.  Ég verð því annars viðhengi og skraut í kvöld.  Eins gott að standa sig…..

8. febrúar 2010

Helgin var tekin í afslöppun.  Það voru því allir hressir hér 6:30 í morgun.  Við skulum sjá hvernig fólki gengur svo þegar líða tekur á daginn. 

Sólin er farin að skína.  Skrýtið, þegar maður heldur að myrkrið hljóti að vera taka yfir í heiminum þá kemur sólin og maður hálf skammast sín að hafa efast um hana um tíma.  Hún fleytir manni langt fram í vorið með birtu sinni og yl.  Það þarf ekki nema einn svona dag og maður finnur strax hvað daginn er tekið að lengja.  Það hljóta að hafa verið svona dagar sem fleyttu mönnum í gegnum dimma og kalda vetur hér á skerinu í gamla daga.  Það hefur verið vonarglætan sem kviknaði í hjörtunum þegar þau fylltust af sól og það fór að hvarfla að fólki að kannski, já kannski það mundi lifa af þennan veturinn.   Ég ætla því að fara út og hengja sængurföt á snúru og horfa á þau blakta í sólinni á meðan ég drekk kaffið mitt.  Það er ekkert sem öskrar jafn duglega vor eins og lítrík sænguföt á snúru í sól.  Eða hvað finnst ykkur? 

Ssssalka sssæta

8. febrúar 2010

4ja mánaða Yrsulingur

8. febrúar 2010

Yrsan okkar er orðin 4ja mánaða.  Hún hlær nú og hjalar, burrar og bíar, veltir sér á magann,tekur í tær og treður í munn og slefar endalaust.  Þetta tekst henni að gera allt saman alveg ómótstæðilega fallegt og sætt í ofanálag svo við hin stöndum á öndinni og dáumst að henni alla daga. 

Suma daga er fjári erfittt að reyna að sjá tilveruna í nýju og spennandi ljósi.   Ekki það að lífið þurfi alltaf að vera svo spennandi, heldur trúi ég því staðfastlega að ég þurfi sjálf að muna eftir að sjá spennandi hliðar tilverunnar.  Þær séu svo sannarlega til hvort sem ég opna augu mín fyrir þeim eða ekki og það hlýtur því að vera heillavænlegra að galopna augun.  Stundum er það eitthvað svo erfitt.  Stundum er eins og maður sjái ekki út úr augum fyrir gráma.  Dagur og nótt renna einhvernveginn endalaust saman í eitt.  Það er aldrei almennilega bjart eða dimmt.  Bara mismunandi grátt.  En þegar gráminn virðist vera alls ráðandi og hefur fyllt út í öll vit svo ég á erfitt með andadrátt.  Þá er gott að muna að grátt er bara hugarástand og tilveran er litlaus þar til ég mála hana. 

Kannski rósrautt sé við hæfi, já eða tilbrigði við grænt með heiðgulu ívafi. 

Dagur tvö…..

26. janúar 2010

Kæri jóli……nei það var víst í öðru lagi.

Það er þriðjudagur sem er góður dagur.  Nóg að gera og mín hittir fullt af skemmtilegu fólki á ólíkum vígstöðum.  (Ekki bara út í Einarsbúð).  Sólin skín á hvítfrissandi sjóinn hér við eldhúsgluggann minn þó það gangi á með hryðjum.  Minnir óneitanlega á lífið og ég ákveð því að njóta sólarinnar á meðan hún er.  Innan skamms kemur  fólkið mitt heim, kannski kíkir einhver í kaffi en þangað til ætla ég að taka smá göngutúr.  Viðra mig í rokinu, taka af mér húfuna og leyfa vindinum að hrifsa vel í.  Það er alltaf hressandi og róar rokið í sálinni, ef eitthvert er.  Svo ætla ég að hita mér rótsterkt kaffi og hlýja mér um hendurnar á því meðan ég les nokkrar blaðsíður í bókinni minni.  Vera svo tilbúin með hlýjan faðminn og bros á vör þegar bóndinn kemur heim.  Las það í einhverri gamalli bók að það sé það sem heimavinnandi húsmæðrum sé hollt að gera.  Vera kátar og glaðar og umfram allt hlýjar við bóndann þegar hann kemur þreyttur heim.  Gott ef maður á ekki að vera tilbúinn að færa hann í inniskóna líka.  Það má reyna þetta.  Þó það sé ekki nema bara til að sjá svipinn á bóndanum þegar hann reynir að ráða í hvort ég sé drukkin, vænisjúk eða fæðingarþunglynd. 

Þar sem elskuleg systir mín dvelur nú erlendis hef ég ákveðið að halda hér smá yfirlit yfir það sem gerist hér á Vesturgötunni.  Það ætti nú ekki að taka mikið pláss eða langan tíma þar sem hver dagur er öðrum líkur og þetta verður því bara meira svona copy-paste.  En hvað veit maður kannski verður hífandi rok og bullandi stemming hér hjá okkur.  Lífið er jú óútreiknanlegt. 

En það sem af er dagsins í dag hefur eftirfarandi gerst.  Vakna, kaffi, þvottavél, uppþvottavél, Yrsa vaknar, hún er böðuð og klædd og sett út í vagn þar sem hún sefur fram yfir hádegi.  Smá meira kaffi og vafrað á netinu……..Segið svo að það sé ekki glimmrandi stemming hérna.  Ég efast um að mágur minn sé jafn kappsamur í húsmóðurhlutverkinu, sem hann sinnir nú í Danmörkunni. 

Það sem eftir er dagsins verður strollað með barnavagn í roki og rigningu, sötrað kaffi á kaffihúsi, spilað og spjallað við dæturnar þegar þær koma heim úr skólanum.  Ísland hvatt áfram til sigurs og svo fagnað gífurlega frameftir degi.  Fiskur soðinn og stappaður og svo staðið í stappi við að koma honum niður í börnin.  Kvöldsaga lesin og bænir og kysst góða nótt.  Hjalað við Yrsu og dáðst að henni fram undir 21:00.  Svo loks þegar allir eru sofnaðir, karlinn á æfingu og ég á loks þessar mínútur bara fyrir mig…….Já þá veltur maður bara útaf, getur hreinlega ekki meira og sofnar með bókina yfir andlitinu.