Skrifað í sólinni

14. apríl 2010

Sit hér við borðstofuborðið og skrifa.  Við Yrsa búnar að fá okkur smá graut í morgunsárið og hún situr nú hjalandi hér við hlið mér.  Hún er ljómandi kát og sátt með lífið.  Enda óendanlega fyndið að vakna fyrir allar aldir og vekja mömmu sína um 6.  Ég er samt löngu búin að sjá við henni og fer að sofa fyrir allar aldir og er þá bara líka ljómandi kát þegar við mæðgurnar vöknum korter í snemma.  Enda hlýtur það að hafa verið nýbökuð móðir sem samdi frasann um að morgunstund gæfi gull í mund.  Ég meina þær fengu engin lyf við þessu þarna í gamla daga.  Þraukuðu bara á rétta viðhorfinu.  Ég hef ákveðið að temja mér það líka.  Rétta viðhorfið það er.  Núna kýs ég til dæmis að skrifa eins og tvo kafla í ritgerðinni og það verður svona ljómandi skemmtilegt, ljúft og létt. 6 ummæli við „Skrifað í sólinni“

 1. Imba ritaði:

  Við erum á sama róli Aldís mín, Tinna Björg virðist ætla að feta í fótspor bróður síns og vera morgunstaur.
  Gangi þér nú vel og við verðum nú að fara að hittast, þori ekki að trufla þig við smíðina. Knús á ykkur…..

 2. aldisa svaraði:

  Já Imba mín við erum svo oft á sama róli. Við hittumst fljótlega. Hér verður hver mínúta notuð fram yfir helgi og svo sé ég hvort ég megi ekki missa nokkrar í smá hitting. Þangað til biðjum við að heilsa.
  Knús í kotið

 3. Olof Helga ritaði:

  …hvad rosalega er rikt i ter og Binna ad eignast morgunhana;) veit ekki hvar eg og Elvar værum stodd ef Aldis Osp væri morgunhani, vid natturulega algjorar B-manneskjur bædi og sem betur fer virdist krakkinn vera tad lika…so far!

  Frabært ad allt gengur vel i ritgerdinni og Yrsa hress…tad tarf nu ekki ad spyrja ad tvi! sjaumst a manudagin!!! eda ja vonandi ef tad verdur flogid

 4. aldisa ritaði:

  Sóley reynir af veikum mætti að halda aftur af tárunum. Hún heyrir fréttir af gosinu og flugbanni um Evrópu en það eina sem hún hefur áhyggjur af er að Ólöf, Elvar og Aldís Ösp komist ekki heim fyrir afmælið hennar. Tárin brjótast fram öðru hvoru og það er ljóst að þetta er henni hjartans mál.

 5. Ólöf Helga ritaði:

  ææiiii dúllan! Hún var líka mjög einlæg þegar hún spurði mig einhvern tímann hvenær við kæmum heim og ég sagði “19.apríl” þá svaraði hún “jáá ákváðuð þið að koma heim þá til að vera komin fyrir afmælið mitt” og ég auðvitað svaraði já:) En ég hugsaði samt í alvörunni í dag að vonandi við kæmumst heim fyrir afmælið hennar!!! Þannig þú getur sko skilað því til hennar að við vonum og liggjum á bæn að komast heim áður en hún verður 9 ára:)

 6. aldisa svaraði:

  Já það er hluti af því að eldast að takast á við vonbrigði lífsins. Ég lofaði henni því að sama hvenær þið komið heim þá mundum við ekki halda fullorðinsafmæli fyrr en þá. Þó við hefðum verið búin að ákveða annað þá væri vel hægt að breyta þvi. Þið getið tekist á við óvissuna og mögulega breytt plön í sameiningu frænkurnar. Ég lofaði henni líka að þið munduð allavega koma heim fyrir afmælið mitt. Vona ég hafi ekki verið að lofa upp i ermina á mér.