morgunsól og grásleppa

19. mars 2010

Sólin flæddi hér inn um alla glugga rétt upp úr klukkan átta í morgun.  Fyllir hér hvern krók og kima sem og hvert skúmaskot í sálinni svo að maður fyllist orku og gleði þrátt fyrir svefnlausar nætur.  Yrsan er með kvef og finnst það skiljanlega pirrandi á nóttunni.  Ég hef því þvegið þvott og hengt út á snúru.  Þar blaktir hann nú skjanna hvítur í sólinni.  En í því sem ég stend í stígvélunum og hengi upp þvottinn sé ég lítinn báta lóna rétt fyrir utan hjá mér.  Bara nokkur hundruð metrar á milli okkar.  Mér finnst sem ég sjái karlinn sitja og drekka kaffi og borða kleinur í lopapeysu með tóbaksklút um hálsinn.  Allt í einu grípur mig yfirgengileg kátína yfir því að það sé grásleppukarl á veiðum rétt fyrir utan hjá mér.  Hversu smart er það?  Á þessu augnabliki finnst mér að það hljóti að vera toppurinn á tilverunni.  Ég klára að hengja upp þvottinn, fer inn og næ mér í kaffið mitt, sest á varnargarðinn í stígvélum og appelsínugulri úlpu utan yfir náttfötin.  Sólin gyllir hafið og ég hlýja mér á kaffikrúsinni.  Skyldi karlinn í brúnni finna þessa kátínu í loftinu líka eða er hún kannski bara mín.  Vonandi veiðir hann eitthvað.  Ég sit áfram í stutta stund, horfi á fuglana, sjóinn og bátinn.  Jú þetta er smart, reglulega smart.  Klára kaffið og tölti inn.  Lífið heldur áfram.3 ummæli við „morgunsól og grásleppa“

 1. Gurrý ritaði:

  efast ekki um að það hefur veiðst vel hjá kallinum því þú hefur þessa einstaklega góðu nærveru. Nú og svo hefur appelsínugula úlpan ekki spillt fyrir…. Vonandi hefur Yrsan sofið vel í nótt og þá þú sömuleiðis.

 2. Gréta ritaði:

  Það er svo æðislegt að lesa færslurnar þínar elsku Aldís, þú ert einfaldlega svo frábær penni að ég fyllist bara stolti yfir því að systir mín sé svona klár ;)
  Hef ekki kíkt hingað inn í dágóðan tíma og svo hef ég bara fullt af færslum sem ég er búin að vera að dunda mér við að lesa og stend mig að því að brosa við og við :)
  Þú ættir í alvöru að gefa út bók Aldís, eða ljóðabók, eða bæði…

 3. Elvar ritaði:

  Er ekki bara að skella Grásleppu á grillið á kallinum ekkert annað í stöðunni segi ég ;)