Stúlkan sem starir á hafið

19. febrúar 2010

Það er enn og aftur kominn föstudagur.  Hvað varð um allar færslurnar þarna á milli.  Þær rötuðu ekki hér inn þrátt fyrir fögur fyrirheit.  En þannig er það bara stundum.  Allt gengur sinn vanagang hér á Vesturgötunni.  Sjórinn, djúpblár og hvítfrissandi mallar hér fyrir utan.  Lætur lítið yfir sér en þó með allt að því ógnandi tilburði á köflum.  Ég get setið hér langtímum og horft út í bláinn.  Ótrúleg lukka í lífinu að lenda hér við sjóinn.  Það er nefninlega þessi stutta stund sem ég hef áður en Yrsa vaknar og fólkið mitt kemur heim.  Þessi stund milli stríða sem ég kýs yfirleitt að eiga hér við eldhúsborðið þar sem ég get horft á hafið með kaffibollann minn.  Ég hunsa ryksuguna sem skáskýtur augunum til min og reynir með því að minna á sig með því að höfða til samvisku minnar.  En ég er samviskulaus þegar kemur að þessum stundum.  Ætla bara að sitja hér og stara á hafið, því næstu mínúturnar er þetta minn tími, mitt líf og mitt haf.  Næstu mínúturnar er ég stúlkan sem starir á hafið.

Svo tekur lífið aftur við í allri sinni dýrð.2 ummæli við „Stúlkan sem starir á hafið“

  1. Ólöf Helga ritaði:

    Elska færslurnar þínar Aldís - stend mig alltaf að því að lesa þær nokkrum sinnum yfir:)

  2. Gréta ritaði:

    Sammála, núna er ég að fara að taka nokkrar í einu, bjóst ekki við að þú værir búin að taka “færslukipp” en svo ertu heldur betur búin að því! Gaman gaman :)