Dagur tvö…..

26. janúar 2010

Kæri jóli……nei það var víst í öðru lagi.

Það er þriðjudagur sem er góður dagur.  Nóg að gera og mín hittir fullt af skemmtilegu fólki á ólíkum vígstöðum.  (Ekki bara út í Einarsbúð).  Sólin skín á hvítfrissandi sjóinn hér við eldhúsgluggann minn þó það gangi á með hryðjum.  Minnir óneitanlega á lífið og ég ákveð því að njóta sólarinnar á meðan hún er.  Innan skamms kemur  fólkið mitt heim, kannski kíkir einhver í kaffi en þangað til ætla ég að taka smá göngutúr.  Viðra mig í rokinu, taka af mér húfuna og leyfa vindinum að hrifsa vel í.  Það er alltaf hressandi og róar rokið í sálinni, ef eitthvert er.  Svo ætla ég að hita mér rótsterkt kaffi og hlýja mér um hendurnar á því meðan ég les nokkrar blaðsíður í bókinni minni.  Vera svo tilbúin með hlýjan faðminn og bros á vör þegar bóndinn kemur heim.  Las það í einhverri gamalli bók að það sé það sem heimavinnandi húsmæðrum sé hollt að gera.  Vera kátar og glaðar og umfram allt hlýjar við bóndann þegar hann kemur þreyttur heim.  Gott ef maður á ekki að vera tilbúinn að færa hann í inniskóna líka.  Það má reyna þetta.  Þó það sé ekki nema bara til að sjá svipinn á bóndanum þegar hann reynir að ráða í hvort ég sé drukkin, vænisjúk eða fæðingarþunglynd. 3 ummæli við „Dagur tvö…..“

 1. Gurrý ritaði:

  mikið djö ertu góður penni stelpa.

 2. aldisa svaraði:

  Mikið djö sakna ég þín Gurrý mín.

 3. Ólöf Helga ritaði:

  Hahahaha þú ert snillingur Aldís, ótrúlega gaman að lesa færslurnar þínar!

  Og takk fyrir að leyfa mér að fylgjast með lífinu á Vesturgötunni, sakna þess óneitanlega að geta ekki skroppið í kaffi og verið sveitt að reyna að halda vargnum frá stiganum;)