Þar sem elskuleg systir mín dvelur nú erlendis hef ég ákveðið að halda hér smá yfirlit yfir það sem gerist hér á Vesturgötunni.  Það ætti nú ekki að taka mikið pláss eða langan tíma þar sem hver dagur er öðrum líkur og þetta verður því bara meira svona copy-paste.  En hvað veit maður kannski verður hífandi rok og bullandi stemming hér hjá okkur.  Lífið er jú óútreiknanlegt. 

En það sem af er dagsins í dag hefur eftirfarandi gerst.  Vakna, kaffi, þvottavél, uppþvottavél, Yrsa vaknar, hún er böðuð og klædd og sett út í vagn þar sem hún sefur fram yfir hádegi.  Smá meira kaffi og vafrað á netinu……..Segið svo að það sé ekki glimmrandi stemming hérna.  Ég efast um að mágur minn sé jafn kappsamur í húsmóðurhlutverkinu, sem hann sinnir nú í Danmörkunni. 

Það sem eftir er dagsins verður strollað með barnavagn í roki og rigningu, sötrað kaffi á kaffihúsi, spilað og spjallað við dæturnar þegar þær koma heim úr skólanum.  Ísland hvatt áfram til sigurs og svo fagnað gífurlega frameftir degi.  Fiskur soðinn og stappaður og svo staðið í stappi við að koma honum niður í börnin.  Kvöldsaga lesin og bænir og kysst góða nótt.  Hjalað við Yrsu og dáðst að henni fram undir 21:00.  Svo loks þegar allir eru sofnaðir, karlinn á æfingu og ég á loks þessar mínútur bara fyrir mig…….Já þá veltur maður bara útaf, getur hreinlega ekki meira og sofnar með bókina yfir andlitinu. 3 ummæli við „Í fréttum er þetta helst…..“

 1. Gurrý ritaði:

  Ég bý ekki í Danmörku heldur nokkrum húsum frá þér Aldís mín en þetta yfirlit kemur sér afskaplega vel fyrir mig því þá fæ ég að fylgjast dálítið með. Við höfum hist allt of lítið síðustu daga og vikur. Getum vonandi bætt úr því á næstunni.

 2. aldisa svaraði:

  Já Gurrý mín ég er á svermi eins og grár köttur fyrir utan hjá þér til að nappa þér heima. Held það sé alveg að detta á. Annars banka ég bara á Vesturgötunni og spyr eftir ykkur. En svo er ég bara hér…Alltaf hér……(nema í þau skipti sem ég labba yfir til þín.) heheh

 3. Gréta ritaði:

  Hæ sæta, ég hafði ekki hugmynd um að þú værir að blogga systir kær! En er búin að lesa yfir færslurnar frá sl. vori, þú ert alveg frábær penni og gaman að lesa bloggið þitt :)
  Sjáumst fljótlega enda ekki langt að fara :)