Föstudagurinn langi

10. apríl 2009

Páskafríið heldur áfram á Skólabrautinni.  Stelpurnar eru úti að hjóla, línuskauta og leika sér allan liðlangan daginn meðan húsmóðirin sinnir gömlum syndum.  Lokaritgerð við LBHI á hug minn allan enda ekki seinna vænna svona korter í skil.  Annars er allt gott að frétta enda ekki annað hægt í blíðunni. 

Í dag er Föstudagurinn langi það er vel við hæfi að eyða honum í ritgerðarsmíðar.  Þó ég muni nú þá tíð þegar maður mátti hvorki æmta né skræmta á þessum degi.  Það var bannað að spila og maður átti að láta sér leiðast allan liðlangan daginn.  Enda voru þetta langir og leiðinlegir dagar í minningunni en páskadagur enn gleðilegri fyrir vikið. 

Það er orðið bjart á skerinu og gott að vakna á morgnana við sól og fuglasöng.  Það fyllir hjörtun birtu og yl og vekur hjá manni þrótt og þor.  Í brjóstinu vakanar þessi sér íslenski spenningur og óþreyja sem heltekur allt og alla á vordögum.  Það er trú mín að ekkert fái hina íslensku bjartsýni niður barið því með vorinu vaknar hún alltaf aftur.Lokað er fyrir ummæli.