Einvera

17. maí 2010

Eftir að hafa verið ein í kotinu stóran part helgarinnar hef ég uppgötvað að ég slappa best af þegar allir eru heima.  Það var ekki fyrr en í gærkvöldi þegar Binni og Sóley höfðu skilað sér heim og allir voru farnir að sofa í sínum rúmum að ég gat slappað af.  Meðan fólkið svaf gat ég loks notið þess að eiga smá tíma fyrir mig.  Skrýtið því ég var ein heima með Yrsu lungað úr helginni og gat bara engan veginn notið þess en þegar allir voru komnir heim og sofnaðir í sínum rúmum, ja þá gat ég loks notið þess að vera ein.  Undarlegt.

Ein ég sit og sauma

26. apríl 2010

Skrifað í sólinni

14. apríl 2010

Sit hér við borðstofuborðið og skrifa.  Við Yrsa búnar að fá okkur smá graut í morgunsárið og hún situr nú hjalandi hér við hlið mér.  Hún er ljómandi kát og sátt með lífið.  Enda óendanlega fyndið að vakna fyrir allar aldir og vekja mömmu sína um 6.  Ég er samt löngu búin að sjá við henni og fer að sofa fyrir allar aldir og er þá bara líka ljómandi kát þegar við mæðgurnar vöknum korter í snemma.  Enda hlýtur það að hafa verið nýbökuð móðir sem samdi frasann um að morgunstund gæfi gull í mund.  Ég meina þær fengu engin lyf við þessu þarna í gamla daga.  Þraukuðu bara á rétta viðhorfinu.  Ég hef ákveðið að temja mér það líka.  Rétta viðhorfið það er.  Núna kýs ég til dæmis að skrifa eins og tvo kafla í ritgerðinni og það verður svona ljómandi skemmtilegt, ljúft og létt. 

Við verðum að hafa í huga…

Við verðum að gera okkur grein fyrir….

Við verðum að átta okkur á….

Hey ég er að reyna að læra hérna. 

útskrift

9. apríl 2010

Sú ákvörðun hefur verið tekin að útskrifa húsmóðurina úr háskóla núna í vor.  Það þýðir að á undra stuttum tíma þarf hún að töfra fram lokaritgerð um efni sem eitt sinn var henni hugleikið.  Því situr hún nú og snýr því í hringi, klórar sér í hausnum og reynir að muna afhverju hún valdi sér einmitt þetta viðfangsefni.  Það hentar henni nefninlega einstaklega illa að kljást við viðfangsefni sem hún skilur ekki til fullnustu, eða að vita ekki almennilega hvað hún á að gera.  Sumir mundu kalla þetta fötlun, aðrir verkkvíða og svo enn aðrir fullkomnunaráráttu.  En sama hvað það kallast þá þarf að setjast niður og skrifa þessa ritgerð, hvernig svo sem það er gert eða hvaða vit verður í henni.  Ég ætla því að hita te, spá í þetta í 20 mínútur í viðbót og demba mér svo í þetta.   

morgunsól og grásleppa

19. mars 2010

Sólin flæddi hér inn um alla glugga rétt upp úr klukkan átta í morgun.  Fyllir hér hvern krók og kima sem og hvert skúmaskot í sálinni svo að maður fyllist orku og gleði þrátt fyrir svefnlausar nætur.  Yrsan er með kvef og finnst það skiljanlega pirrandi á nóttunni.  Ég hef því þvegið þvott og hengt út á snúru.  Þar blaktir hann nú skjanna hvítur í sólinni.  En í því sem ég stend í stígvélunum og hengi upp þvottinn sé ég lítinn báta lóna rétt fyrir utan hjá mér.  Bara nokkur hundruð metrar á milli okkar.  Mér finnst sem ég sjái karlinn sitja og drekka kaffi og borða kleinur í lopapeysu með tóbaksklút um hálsinn.  Allt í einu grípur mig yfirgengileg kátína yfir því að það sé grásleppukarl á veiðum rétt fyrir utan hjá mér.  Hversu smart er það?  Á þessu augnabliki finnst mér að það hljóti að vera toppurinn á tilverunni.  Ég klára að hengja upp þvottinn, fer inn og næ mér í kaffið mitt, sest á varnargarðinn í stígvélum og appelsínugulri úlpu utan yfir náttfötin.  Sólin gyllir hafið og ég hlýja mér á kaffikrúsinni.  Skyldi karlinn í brúnni finna þessa kátínu í loftinu líka eða er hún kannski bara mín.  Vonandi veiðir hann eitthvað.  Ég sit áfram í stutta stund, horfi á fuglana, sjóinn og bátinn.  Jú þetta er smart, reglulega smart.  Klára kaffið og tölti inn.  Lífið heldur áfram.

Skvísur

17. mars 2010

                        Sóley, Ylfa og Salka

(man eftir kynslóðinni fyrir ofan í svipuðum stellingum)

Yrsa

17. mars 2010

Valhopp

16. mars 2010

Það er komið langt fram í mars.  Daginn farinn að lengja svo mikið að það er orðið vel merkjanlegt á matarlist barnanna.  Enda er búið að taka fram hjól og línuskauta, máta og prófa.  Salka komst vel að orði þegar hún var búin að fara í fyrsta hjólatúr vorsins, í sól og 9° hita.  “Mamma það er langt síðan ég hef verið svona sprelllifandi”.  En barnið hefur rétt fyrir sér, lífið þröngvar sér inn í mann þessa dagana svo maður finnur hverja frumu lifna við.  Það grípur mann gömul og óstöðvandi löngun til að valhoppa á gangstéttunum.  Einhver fiðringur í hjartanu sem magnast. 

Það er vor í sálinni og ég valhoppa ef mig langar til.

12. mars 2010

Það liggur lægð yfir húsmóðurinni á Vesturgötunni.  Ef hún væri köttur mundi hún bara liggja hér og mala, það er þegar hún nennti því.   Hallast helst að því að hún sé með einhverja röskun.  Veit ekki hvað hún kallast á fræðimáli en við hér köllum það nenniggi.  Því hefur verið gert hlé á skrifum þar til lægðin gengur yfir.  Spáin er góð og útlitið bjart.  Þið bíðið væntanlega spennt.